Ferill 670. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1133  —  670. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um íþróttalög.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er gerð krafa um það í íþróttalögum, nr. 64/1998, að einstaklingar sem kjósa að stunda keppnisíþróttir þurfi að gera slíkt undir merkjum sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands?

     2.      Er gerð krafa um það í íþróttalögum að einstaklingar sem taka þátt í alþjóðlegum mótum og slá met eða vinna titla fái árangurinn aðeins viðurkenndan ef þeir eru meðlimir í sérsamböndum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands?

    Íþróttalög kveða ekki á um þau atriði sem fyrirspurnin lýtur að en skv. 2. mgr. 5. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar. Í lögum ÍSÍ er fjallað um innra skipulag sambandsins. Starfsemi íþróttafélaga sem aðild eiga að sérsamböndum ÍSÍ og skipuleggja þær keppnisíþróttagreinar sem ÍSÍ hefur samþykkt fer fram undir heildarskipulagi sem íþróttahreyfingin hefur samþykkt. Sérsambönd ÍSÍ sem skipuleggja mót og keppni í mismunandi íþróttagreinum eiga aðild að alþjóðlegum sérsamböndum sem fara með stjórn og regluverk íþróttagreina ásamt því að skipuleggja alþjóðleg mót í viðkomandi greinum, svo sem Evrópukeppni og heimsmeistarakeppni, og landslið Íslands taka þátt í. Flestar íþróttagreinar sem stundaðar eru á landinu eru með aðild að ÍSÍ á einn eða annan hátt og þar með er aðild að alþjóðasamtökum íþróttagreina hjá ÍSÍ í gegnum aðildarfélögin.
    Hvað varðar 1. tölul. fyrirspurnarinnar og með hliðsjón af framangreindu skipulagi verður að taka mið af því hvort einstaklingur ætlar að stunda viðkomandi keppnisíþrótt hjá íþróttafélagi sem aðild á að sérsambandi ÍSÍ og ætlar að taka þátt í mótum á vegum þess. Ef viðkomandi íþróttagrein er ekki undir hatti ÍSÍ á þetta ekki við. Svo er þekkt að hópar stunda ýmsar íþróttagreinar sér til skemmtunar eða af áhuga og getur það verið með eða án atbeina sérsambanda eða íþróttafélaga.
    Hvað varðar 2. tölul. fyrirspurnarinnar þá viðurkennir ÍSÍ met í samþykktum keppnisíþróttagreinum sem eru innan sambandsins. ÍSÍ eða sérsambönd þess koma ekki að viðurkenningu mets eða árangurs ef um er að ræða keppnisíþróttagreinar sem ekki eru innan skipulags sambandsins.